Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

fimmtudagur, október 02, 2003

Símar hata mig.. ekki veit ég hvers vegna.

Símarnir tveir í lífi mínu þessa dagana eru heimilissíminn og gemsinn minn, hvor öðrum illgjarnari. Heimilissíminn er plastdrasl sem var ódýrasti síminn með númerabirti sem okkur tókst að grafa upp í fyrra (enn ein sönnunin fyrir því að níska borgar sig ekki alltaf..hrummpff), hann virkaði aldrei almennilega, á njallanum gátum við ekki verið með hann í sambandi því hann ruglaði algjöradraslið (adsl-ið) og það var náttlega ekki hægt! gotta have the puter... þannig að gemsareikningarnir ruku upp þar sem enginn var heimilissíminn.. í marga mánuði. Svo komum við í Ásgarðinn og hugsum okkur gott til glóðarinnar að geta farið að tala í símann eins og venjulegt fólk. Þegar við stingum elskunni í samband kemur í ljós að hann er orðinn hás af vannotkun, jarmar eins og mæðuveik rolla í maraþoni þannig að það er varla að við heyrum í honum þegar hann hefur upp raust sína.. sérstaklega ekki þegar við erum á einhverri annarri hæð en hann. Svo dettur hann úr sambandi í tíma og ótíma.. en það er bara til að fara í taugarnar á okkur.

Gemsinn er svo kapítuli út af fyrir sig. Hann er farinn að taka upp á því að deyja í tíma og ótíma, sérstaklega er það vinsælt þegar ég er í mikilvægum símtölum, helst í sambandi við vinnuna. sim kortið dettur úr sambandi stundum og stundum hafnar hann símtölum alveg upp úr sjálfum sér! hver segir svo að það sé ekki ritskoðun á íslandi! En hann er samt voða sætur, það er mynd af kalla og kobba á honum (calvin and hobbes fyrir ykkur sem munið ekki eftir þjóðviljanum) og hann spilar prúðuleikaralagið fyrir mig þegar einhver þarf að ná í mig.. elskan litla.

Prúðuleikaralagið er annars ekki svo góð hugmynd eftir allt.. þetta símalag hefur nefnilega verið über reality check hjá mér stundum! Ég komst semsagt að því í fyrra að ENGIN börn þekkja þetta lag. Ég spilaði það fyrir öll 70 börnin sem ég var að kenna í fyrra og ekki eitt einasta þeirra þekkti það.. ég lagðist náttúrulega í nett þunglyndi yfir því hvað aldurinn færist hratt yfir en þetta var bara byrjunin.. ég fór nefnilega svo í vor austur í óperu til Keith og þeirra og sat þar hjá hrúgu af hljómsveitarkrökkum.. fór að segja þeim frá þessari óskaplegu vanþekkingu hjá blessuðum börnunum og spilaði lagið fyrir þau til áhersluauka. Þá kom aðalsjokkið. Ekkert af ÞEIM þekkti lagið!! AARRGGGHHH!! og þetta var fólk sem ég var á djamminu með!!!! Hringdi bara strax og pantaði Botoxið þegar ég kom heim...