Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

mánudagur, júlí 31, 2006

operation Kjalvegur

fórum Kjalveg hinn forna um helgina, Hveravellir-Hvítárnes. Leiðin allt í allt um 42 kílómetrar eða sosum eins og eitt maraþon. Fórum með ferðaklúbb besta bankans og nokkrum auka norsurum. Fyrst eyddum við hálfum degi á röltinu og í heitu lauginni á Hveravöllum og lögðum svo af stað á laugardeginum, gengum þá ca 10 tíma yfir í Þverbrekknamúla og gistum þar, það eru um það bil 25 km. Seinni daginn röltum við svo í rólegheitunum þessa 17 km niður í Hvítárnes, sem tók um 5 og hálfan tíma.
Fengum alveg stórfenglegt gönguveður, á laugardaginn var um 20 stiga hiti, hlý gola og ekki mikil sól, þó nóg til að ég líti út eins og eftir ca viku á rímíní. Sunnudagurinn var ögn kaldari og sólarlaus en báða dagana var þó svo háskýjað að vel sást til fjalla og jökla á leiðinni.

Og hvílíkir jöklar og hvílík fjöll! Hofsjökull, Langjökull, Kerlingafjöll, Hrútfell (eða Regnbúðajökull eftir hvar maður er á landinu), Bláfell og Jarlhettur svo fátt eitt sé nefnt. Mikið afskaplega er landið okkar fallegt..

Ekki spillti fyrir að hópurinn var alveg einstaklega skemmtilegur og jákvæður þrátt fyrir þrálátar hrotur í norsurunum fyrri nóttina. Okkur fannst samt alveg merkilegt hvað norðmennirnir drukku á göngunni, þeas sumir. Ekki mátti hvíla í 5 mínútur nema að gammeldanskinn væri dreginn upp, og einn lét sér það ekki nægja heldur skellti í sig einum hálfslítrabjór í hverju einasta "kaffi"stoppi. Og þau voru mörg því þetta var yfirlýst ókraft-ganga og stoppað á um klukkutíma fresti til að njóta útsýnisins og taka myndir. Kannski ástæðan fyrir hvað þeir voru skemmtilegir greyin :D

Allt í allt alveg frábær ferð sem við eigum eftir að lifa á lengi. Nú langar mig mest til að skreppa austur á Eyjabakka eins og bróðir minn og mágkona, sé hvort það gangi upp áður en ljótu mennirnir skemma svæðið..

Nokkrar myndir í blogginu hér fyrir neðan.

nokkrar myndir úr operation Kjalvegur

Nonni sæti við fúlukvísl..
sá gamli á fornum slóðum í Þjófadölum, gisti þar í fyrsta sinn fyrir 50 árum, þá í hjólaferð um hálendið.

Náttúruleg ufsagrýla í Strýtunum fyrir ofan Hveravelli, Hrútfell í baksýn

Hver á Hver-avöllum..

fimmtudagur, júlí 13, 2006

útvarp reykjavík

Stína sæta spurði mig áðan á msn hvort það væru ellimerki að vera alltaf með stillt á gufuna. Ég vildi nú ekki alveg gútera það en sagðist halda að þetta væri miklu frekar einhver fortíðarþrá, löngun til að hverfa aftur til barnæskunnar. Þegar maður heyrði stefið í morgunleikfiminni eða Gerði G. Bjarklind spila óskalög frá Sigríði Einarsdóttur frá Hlíðarendakoti í Fljótshlíð væri eins og aftur væri komið í eldhúsið hjá ömmu og von væri á ýsuflaki með kartöflum og bræddu smjöri á borðið eftir smástund.

Það er nefnilega svo mikilvægt á þessum tímum hraða og þriggja sekúndna athyglisgáfu að hafa eitthvað sem breytist ekki neitt og stenst tímans tönn. Eitthvað róandi og stabílt. Nú er ég sjónvarpssjúklingur dauðans þannig að ég er ekkert sérstaklega hlynt afturhvarfi til einnar stöðvar með frí á fimmtudögum og í júlí, ég er heldur ekki til að bakka neitt með samkeppni á vörumarkaði eða netvæðinguna og held því statt og stöðugt fram að að flestu leyti sé betra og auðveldara að vera til núna en fyrir bara tuttugu árum síðan.

Samt koma oft tímar þar sem gufan ræður ríkjum og ég nýt þess að sitja í eldhúsinu, bara mínu í þetta skiptið, drekka uppáhelling og kíkja í moggann. Kannski er það tilfinningin að vera barn sem kallar eða kannski er það manneskjurnar sjálfar, þeas ömmur mínar sem er gott að finna fyrir. Kannski er það einfaldlega það að á þessari stöð er hægt að finna ótrúlega skemmtilega og fræðandi þætti um allt og ekkert, skrifaða af frábærum pennum eins og þessum hér. Svo ekki sé minnst á tónlistarþættina, hvern öðrum betri. Hvað sem því líður er rás eitt ómissandi liður í mínu heimilishaldi.. og mér finnst ég bara ekki neitt vera gömul.

mánudagur, júlí 10, 2006

the business of summer

gwahh hvað það er pirrandi að þurfa að sinna mikilvægum erindum við stofnanir og fyrirtæki borgarinnar um mitt sumar þegar the dreaded afleysarar eru að störfum. Er búin að sitja heima í stresskasti yfir að fá engin svör frá útgáfufyrirtæki einu hér í borg, hringi svo í dag til að reka á eftir og kemst að því að mér voru gefnar þvílíkt vitlausu upplýsingarnar..

Great.

Þá er bara að kveikja á pollíönnunni og fagna því að hin rétta boðleið sé fundin og vona að nú fari að færast fjör í leikinn.

laugardagur, júlí 08, 2006

ammæli

Jæja þá er maður orðinn tuttugu og tólf.

gaman að því :D

miðvikudagur, júlí 05, 2006

jafnræði


hurðu, það dugar víst ekki að einoka þetta blogg með annarra manna börnum og því er best að henda hér inn einni góðri af míns eigins grís.

annars er það helst að frétta af fyndna barninu að hún tók upp á því fyrir nokkrum dögum að fara að lesa og hélt með ítölum í gær. Þar með dúkkaði upp eitt jei þegar þeir skoruðu í gær, öfugt við foreldrana sem rifu hár sitt og skegg. í kvöld ætlar hún svo að halda með frökkum og þegar hún var spurð af hverju þessi lönd yrðu fyrir valinu svaraði hún: nú ég verð að halda með löndunum sem ég hef komið til!

Hún heldur því nefnilega statt og stöðugt fram að þegar hún "kom" til Parísar, þá 5 mánaða í bumbunni hafi hún sko séð helling. Eiffel og allt. Kíkti bara út um naflann sko.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

grísir

verð hér að skella inn myndum af mínum yndisfríðu og stórfenglegu nýju frændsystkinum, það er sko greinilegt að þau sverja sig í ætt við yðar auðmjúlega undirrituðu.. jájá..

hér er semsagt Brynhildur Kitta og Ástríðardóttir, ótrúlegt bjútí:


og hér kemur Ari, prins af germaníu, sonur Ausu og Flo:
dásemd bara, hlakka til að hitta þau betur í ríl læf. Sá Brynhildi í mýflugumynd þegar hún var um vikugömul og Ara hef ég aldrei hitt enda er gaurinn búsettur í HM landi. En er víst á leiðinni heim.

laugardagur, júlí 01, 2006

BirthdayVælan

átti aldeilis frábært afmæliskvöld með Nonna sæta í gær, ákváðum að skella þessu fram um viku þar sem gæti verið hætta á hálendisgönguferð á afmælinu sjálfu og þar fyrir utan var síðasta sýning á sjóinu sem mig langaði til að vera boðið á í gærkveldi.

Dagurinn var þó sem betur fer ekki afmælisdagurinn sjálfur því hann var frekar súr og ég því ekki í mjög góðu skapi þegar ég kom heim um korter yfir sex og fór að búa mig, tók mér góóóðan tíma í málningu og annað sprúss og var svo í vandræðum (vælu veinólínó) með að ákveða í hvað skyldi fara. Tíu mínútum í sjö berast svo köll að neðan..

Jón: Hallveig mín, þú veist að klukkuna vantar tíu mínútur í!

Ég: já, ég veit, tíu mínútur í sjö.. við náum alveg samt að fá okkur bita fyrir sýninguna.

Jón: nei, sýningin byrjar sjö, vissirðu það ekki?

Panikk í tíunda veldi helltist yfir mig þar sem ég stóð á sokkabuxunum og haldaranum.. þvílíkt og annað eins stress.. ég var vægast sagt komin í brjálað skap á leiðinni niður í óperu, við rétt náðum inn á fyrstu tónunum og þurftum að fikra okkur í sætin með viðeigandi klappi á kolla annarra sýningargesta. Náðum þó í sætin áður en fyrstu orðin voru sungin og fór þá heldur betur að lyftast brúnin á minni.. þegar ég var tíu ára gömul circabát átti Tinna vinkona nefnilega kasettu með lögum úr Litlu Hryllingsbúðinni, upprunalegu uppfærslunni með Leifi Hauks, Eddu Heiðrúnu, Ladda, Bjögga og þeim og hlustuðum við á þetta út í GEGN í um það bil ár eða svo. Kunnum textana aftur á bak og áfram og lifðum okkur inn í þennan stórskemmtilega heim.
Því bar við að eftir öll leiðindi dagsins fann ég mig þarna í nostalgíu dauðans og skemmti mér stórvel.

Eftir sýninguna fórum við svo út í stórfenglegt sumarkvöldið og þá kom í ljós að Jóninn hafði plottað að bjóða mér alminnilega út að borða og hafði látið mig halda að við værum bara rétt að fá okkur samloku eða svo fyrir sýninguna. Í staðinn enduðum við á einum af okkar uppáhalds stöðum, Austur Indía fjelaginu sem er eins og alþjóð veit einn besti indverski staður í veröldinni og þótt víðar væri leitað. Hann stóð undir væntingum eins og fyrri daginn, okkar kæri fyrrverandi nágranni sem vinnur þarna gaf okkur complimentary forrétt og leysti okkur út með tveimur ógeðslega flottum cobra glösum.. bara gott.
Tókum okkur svo góðan göngutúr um miðbæinn eftir matinn en pössuðum okkur á að koma okkur þaðan áður en ógeðið hæfist.

Dásamlegt kvöld og með skemmtilegri afmælisgjöfum sem ég hef fengið.

Enda á ég líka æðislegan mann.