Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

mánudagur, júlí 28, 2008

björgum Þjórsárdal!

Jæja kæru lesendur, nú er að hafa hraðar hendur og senda eftirfarandi skjal á Flóahrepp FYRIR 1. ÁGÚST NÆSTKOMANDI!! Ég treysti á alla sem þetta lesa að þeir sendi! Heimilisfang er hér efst, bréfið skal merkt aðalskipulagi. Vinsamlegast dreifið að vild. Koma svo alle hoppa!

Flóahreppur
Þingborg
801 Selfoss


19. júní 2008


Efni:
Athugasemd við auglýst aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018 í fyrrum Villingaholtshreppi

Ég undirritaður/undirrituð mótmæli reit I1, iðnaðar- og athafnasvæði á aðalskipulagi Flóahrepps 2006-2018 í fyrrum Villingaholtshreppi, en svæðið gerir ráð fyrir Urriðafossvirkjun Einnig gerir aðalskiplagið ráð fyrir stíflu og varnargörðum Heiðarlóns og mótmæli ég því.

• Urriðafossvirkjun mun setja einstakan laxastofn Þjórsár í hættu og jafnvel þurrka hann út. Talið er að 4-5000 laxfiskar fari upp Þjórsá árlega. Í Þjórsá veiðast 5% þess lax sem veiddur er árlega á Íslandi.

• Verði af Urriðafossvirkjun mun árfarvegur Þjórsár verða nær þurr frá Heiðartanga og niður fyrir Urriðafoss. Þetta þýðir að ein mesta náttúruperla hreppsins, Urriðafossinn hverfur. Þar eyðileggst mikilvægur staður og aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.
Auk þess ber okkur skylda til að varðveita slíkar náttúruperlur fyrir komandi kynslóðir.

• Hætta getur skapast fyrir fólk eða búfé í nær þurrum árfarveginum sem verður um 3,5 km, ef skyndileg rennslisaukning verður.

• Stífla Heiðarlóns mun standa á Þjórsárhrauninu sem er sprungið og hreyfist mikið í jarðskjálftum. Mikil vá er fyrir dyrum ef stífla og varnargarðar bresta í jarðskjálftum sem eru tíðir á þessu svæði.

• Í Heiðarlóni yrðu 17 milljón tonn af vatni. Hætta er á að grunnvatn muni hækka undan þunga lónsins og að vatn muni fara eftir sprungnu hrauninu undir stífluna. Þá eyðileggjast tún og beitarlönd bænda.

• Áætlað er að Þjórsá muni flytja inn í Heiðarlónið allt að 75.000 m³ af jarðefnum á ári. Þessu efni þarf að dæla upp úr lóninu á hverju ári frá byrjun og haugsetja á bökkum þess. Þó haugsvæði séu ekki staðsett í Flóahreppi verður rykmengun af þessum haug þegar fíngerður framburðurinn þornar og fýkur.

• Í Þjótanda hafa fundist fornar rústir frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Í stað þess að láta þær lenda undir stíflu væri réttara að nota svæðið til útivistar, fræðslu um lífshætti landnámsmanna og í þágu ferðaþjónustu.


Virðingarfyllst,

_____________________________________________
Nafn, kt.

_____________________________________________
Heimilisfang

Efnisorð: