Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

þriðjudagur, ágúst 16, 2011

Vinarkveðja

„Ég er á leiðinni, keypti mér flugmiða“. Þennan tölvupóst fékk ég frá Gunnari Hrafni í Stuttgart þegar ég var ólétt að flytja heim frá London. Hann birtist svo nokkrum dögum seinna eins og hvíti stormsveipurinn sem hann var, á meðan við Jón þrifum sitthvora skúffuna í náttborðinu kláraði hann eldhúsið. Við tókum að okkur að þurrka af gluggakistunni í stofunni og á meðan kláraði Gunnar Hrafn baðherbergið. Mættur frá Þýskalandi til að hjálpa okkur, óumbeðinn að sjálfsögðu.

Svona var vinur minn. Örlátur á tíma og væntumþykju. Fáránlega duglegur. Snyrtipinni fram í fingurgóma (verst að ekki var farið að örla á þeim eiginleika á sambýlisárum okkar Þóru Bjarkar og hans í Skaftahlíð) og alltaf óaðfinnanlega klæddur. Klár, svo ótrúlega ljóngáfaður að þar höfðu fáir tærnar þar sem hann geymdi hælana. Brimandi af réttlætiskennd þannig að eftir var tekið. Viðkvæmur en samt svo sterkur.
Það orð sem lýsir Gunnari Hrafni samt kannski best er einstakur. Hann skildi allstaðar eftir sig spor þar sem hann kom og þeir sem kynntust honum eiga eftir að muna hann alla tíð.

En hann gat líka verið skapstór og stundum stórorður þannig að hann var ekki allra. En þrátt fyrir að það væri sú hlið af honum sem margir þekktu einungis var það bara yfirborðið því undir niðri var eitthvað það mesta ljúfmenni sem ég hef kynnst. Vinur minn sem alltaf var til staðar til að hlusta, hugga, gleðjast, hlæja og njóta augnabliksins. Þó hann væri kannski ekki alltaf jafn nálægur og þau ár sem við vorum svo samrýmd að óhugsandi var að mæta í fjölskylduboð nema hitt væri með eða að sjálfsagt væri að við værum herbergisfélagar í kórferðum (japönskum húsfreyjum til mikillar skelfingar þegar í ljós kom að við værum ekki par), þá hélst samband okkar alltaf lifandi, alltaf til staðar þegar á reyndi.

Hann var heimshornaflakkari. Ég þurfti stundum að hafa mig alla við að fylgjast með því hvar hann var staddur í veröldinni, einn daginn í Santa Cruz að skrifa doktorsritgerð og þann næsta í York við rannsóknir. Við kennslu í Þýskalandi, Danmörku og Noregi. Síðastnefnda landið reyndist honum kannski best því þar kynntist hann ástinni sinni henni Önnu-Lenu og þá glöddumst við vinir hans óumræðinlega. Ekki spillti fyrir að með henni kom í kaupbæti elskulegi drengurinn hann Tycho. Hamingja þeirra varð svo fullkomnuð þegar Ragna litla bættist í fjölskylduna fyrir þremur árum. Þau höfðu svo fundið sér stað í smálöndum Svíþjóðar þar sem þeim leið öllum óskaplega vel og þau ætluðu sér framtíðarbúsetu.

Því þetta var hlutverkið sem við óskuðum öll að Gunnar Hrafn fengi að upplifa, við vinkonurnar vorum vanar að segja að ef það væri eitthvað sem við vissum þá væri það að Gunnar Hrafn yrði frábær pabbi. Og það var hann svo sannarlega, ljúfur en samt strangur, alltumvefjandi án þess að vera yfirþyrmandi og aldrei óþolinmóður eða pirraður. Hann var foreldrið sem við reynum öll að verða auk þess að vera traustur og ástríkur eiginmaður og missir Önnu-Lenu og barnanna er ólýsanlegur.

Gunnar Hrafn var húmoristi af guðs náð. Hlátur hans var sá mest smitandi sem ég hef heyrt og hann átti nóg af honum. Nóttina eftir að mamma hans hringdi í mig með þessar skelfilegu fréttir settist ég niður og las öll sendibréfin frá honum í gegn um árin en þau voru eini kosturinn við það að búa í sitthvoru landi í öll þessi ár. Og ég hló svo tárin streymdu og blönduðust við tregatárin sem fyrir voru.

Það sem kannski einkenndi Gunnar Hrafn mest hér á landi síðustu ár var barátta hans gegn misrétti. Hann barðist hatrammlega gegn ójafnrétti og gagnrýndi staðalímyndir kvenna og karla eins og þær birtast gjarnan í fjölmiðlum. Barátta hans á því sviði var nauðsynleg og tímabær og henni skal haldið áfram í hans nafni hvað sem tautar og raular.

En þó svo baráttujaxlinn Gunnar Hrafn hafi verið fyrirmynd allra jafnréttissinna sakna ég fyrst og fremst vinar míns. Einstaka vinar míns.

Elsku Anna-Lena, Ragna, Tycho, elsku Inga mín, María Hrönn, Gígja, Björn og fjölskyldur, ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Hvíldu í friði elsku Gunnar Hrafn. Líf mitt verður aldrei samt án þín.

þín Hallveig