Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

föstudagur, apríl 07, 2006

Sigurður Demetz - In memoriam

árið 1991 kom þrjóskur sextán ára stelpukjáni inn á skrifstofu hjá Ragnari Björnssyni heitnum, skólastjóra í Nýja Tónlistarskólanum og tilkynnti honum að þangað væri hún mætt í söngnám..

"já," svaraði hann, "ég skal athuga hjá hverjum er laust."
"Nei." kom svarið, "Ég ætla til hans Demetz."

Nokkrum dögum seinna fór þessi sami kjáni á Ljósvallagötuna að syngja fyrir il maestro. "Þú ert allt of ung!" sagði gamli maðurinn.. "ég skal taka þig en þú færð BARA að syngja æfingar fyrsta árið".

Þannig byrjaði þetta 16 ára yndislega vinasamband mín og Demma. Hann hugsaði svo vel um mig, passaði röddina mína og kenndi mér svo margt, frá honum hef ég allan grunninn og meira til, hann kenndi mér virðingu fyrir tónlistinni, sjálfri mér og lífinu. Hann var alltaf til staðar fyrir mig, þó þeir tímar kæmu sem ég var ekki að standa við minn hluta, ég hefði átt að vera miklu duglegri í náminu, miklu virkari og seinna miklu duglegri við að halda sambandinu.

Og ég man svo margt. óendanleg hlý bros og faðmlög. Spagetti Gorgonzola í hádeginu á Fossagötunni. Langa eftirmiðdaga við spegúlasjónir um músík og hlustun á gamlar plötur og kasettur. Demma á nærri öllum tónleikum hjá mér, sitjandi á fremsta bekk, hvetjandi mig áfram.

Demmi dó í morgun 93 ára á Sóltúni þar sem hann átti heima síðustu mánuðina.

Hann var saddur lífdaga, þreyttur.

Farðu í friði elsku Demmi minn. Ég á alltaf eftir að sakna þín.