Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

fimmtudagur, desember 16, 2004

Jóla hvað?

einn atvinnusjúkdómur sem hrjáir okkur söngvara (allavega okkur sem höfum eitthvað arminnilegt að gera ;) ) er hátíða- og veislufælni. Málið er nefnilega að þegar eru framundan hjá manni sosum eins og 7-10 gigg í næstu viku hugsar maður um lítið annað en það. Alltof niðursokkinn (eða kannski í þesu tilfelli jólasokkinn) í það sem maður er að fara að gera.
Hlutir eins og jólin komast einfaldlega ekki að. Það er bara ekki pláss. Ef hún væla ykkar væri aðeins skipulagðari en hún er væri hún auðvitað búin að gera sér grein fyrir þessu fyrir mörgum árum og væri farin að stunda Kringlur og annað bakkelsi af miklum krafti í jólagjafakaupum svona í endaðan ágúst. En nei, eins og dyggir lesendur þessarar síðu vita, er það nú ekki tilfellið.

Hlutir eins og ljósahrúgur á bandi, skreytingar, skítugir eldhússkápar, jólakort, og súkkulaði-óverdósandi kökur eru bara ekki á dagskránni.

En þetta er reyndar allt í lagi því eins og móðir mín elskuleg benti mér á í símann áðan er ég hvorteð er með síðustustundugenið frá henni sem er búið að tröllríða fjölskyldunni í 4 ættliði.. hef ég heyrt. Þetta gen orskakaði iðulega heila fjölskyldu á hlaupum með freonspúandi úðabrúsa og silfurpússið á lofti, í sparigallanum alveg til korter í sex á aðfangadag, gargandi hvort á annað í stressinu, allir of seinir út í bíl til að geta orðið gífurlega friðsæl og hamingjusöm og skælbrosandi þegar messan í Dómkirkjunni (og seinna í Hallgrími í hvítu kjólunum) hringdi inn.

Mamma segir að við séum spennufíklar. Það er örugglega alveg rétt.