Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Harry, dear..

í tilefni langþráðrar útgáfudagsetningar Harry Potter and the half-blood prince ákvað ég að hella mér í 5. bókina aftur. Var bara búin að lesa hana í heildina einu sinni en þó nokkuð oftar gluggað, og þá helst í endann.

Verð að segja að ég er alveg gjörsamlega sokkin. J.K. Rowling er frábær rithöfundur. Það sem mér finnst skemmtilegast er hvað persónusköpuninni hefur fleygt fram hjá henni, Harry í þessari bók er alveg einstaklega vel skrifuð persóna. Hann er meingallaður, að drepast úr unglingaveiki en samt heilsteyptur og heillandi sem fyrr.
Þroskasaga hans er alveg mögnuð, ótrúlegt að fylgjast með honum uppgötva heiminn, eins og t.d. hið klassíska sjokk sem hver manneskja fær þegar hún uppgötvar að foreldrar sínir eru ekki fullkomnir, hvernig hann verður líkamlega meðvitaður (áhyggjur af löngum útlimum og stóru nefi) þegar hann er nálægt stelpunni sem hann er skotinn í og þegar hann fær í fyrsta sinn nasaþefinn af því óútskýranlega fyrirbæri sem er kvenkynið.

Aðrar persónur bókarinnar eru líka vel skrifaðar, gaman er að fylgjast með sambandi Hermione og Ron, Sirius er spennandi karakter og ekki síður erkifjandinn Snape sem hér er í fyrsta sinn sýndur í nýju ljósi. Fleiri persónur eru vaxandi í þessari bók og er t.d. mjög ánægjulegt að sjá Neville og Ginny eldast og þroskast til jafns við harry.

Allt þetta er sýnt með augum Harry, sjónarhornið er hans eingöngu þó svo að bækurnar séu ekki skrifaðar í fyrstu persónu. Við fáum einungis að vita það sem Harry veit, sjáum aldrei neina aðra atburðarrás en þá sem hann verður vitni að. Þetta er snilldarlegt þar sem þetta heldur spennunni svo margslunginni, á svo mörgum "levelum". Hvert fara t.d. Dumbledore og Hagrid þegar þeir eru gerðir brottrækir úr Hogwarts? Hvar heldur Voldemort sig og hverjir eru helstu áhangendur hans? og svo mætti lengi telja.

Þetta er snilld. Bara snilld.