flatneskja.is
Á heimilið er kominn nýr diskur okkur foreldrunum til töluverðrar mæðu. Það er prinsipissan Birgitta með nýjustu afurðina, Perlur (í þessu tilfelli fyrir svín.. ii djók).
Diskurinn er hámark ládeyðunnar. Ekki vottar fyrir neinu sem gæti talist list eða passjón fyrir því sem verið er að gera, það er gjörsamlega ENGIN sál í tónlistinni.
Fer beinustu leið upp á hillu í heilanum með "Söngva"borgum Siggu Beinteins þar sem maður beinlínis heyrir hana vera að reikna út gróða og hugsa um sölutölur. Maður kveikir á útvarpi latabæ og út streymir peningalyktin og bíllinn verður á svipstundu á við meðal loðnubræðslu. Birgitta greyið má þó eiga það að hún er með kóverlög eingöngu á meðan Sigga hefur greinilega mjög gaman að hnoði á hlaupabrettinu og framleiðir beinlínis ILLA texta í massavís. Fleiri textar þýða fleiri lög, fleiri borgir, meiri monní.
Að vera með þetta í eyrunum hefur vakið upp gamlar pælingar hjá mér. Til eru íslenskar barnaplötur sem eru hrein andstæða þessa, í okkar tíð var það Olga Guðrún og svo auðvitað hin ógleymanlegu Hrekkjusvín, nýrri dæmi eru Dr. Gunni með sitt snilldarverk Abbababb og Anna Pálína Árnadóttir heitin. Hér er mikið við lagt, textarnir eru vel samdir og gera ráð fyrir að krakkar séu ekki eins vitlausir og margir virðast halda auk þess sem mikið er lagt í lagagerð og flutning.
Hrekkjusvínin voru t.d. snilldartónlistarmenn þess tíma sem fengu í lið með sér einn besta rithöfund sinnar kynslóðar Pétur Gunnarsson til að skrifa textana og útkoman er auðvitað klassík.
Ég er með drauma í maganum og hef haft lengi um að gera svipaða hluti. Nú er ég málkunnug nokkrum af bestu rithöfundum minnar kynslóðar og langar að fá texta hjá þeim. Þarf bara að grafa upp einhverja fleiri mússíkanta sem væru til í tuskið.
Einhverjir sjálfboðaliðar?
p.s. finnst nú samt fyndið að heyra Birgittu syngja: Ósk míns kærasta.. er að eignast kærasta..
<< Home