Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

föstudagur, febrúar 18, 2005

Bragðgóð skemmtun

Eitt það leiðinlegasta sem ég veit er að brjóta saman þvott og endar sú iðja iðulega fyrir framan imbakassann þar sem ég læt mata mig á einhverju heilalausu afþreyingarefni til að koma í veg fyrir að ég sagi af mér hægri handlegginn til að sleppa undan nærbuxnahrúgunum (sem eru yfirleitt orðnar verulegar áður en ég hef mig til verks). Það er nefnilega erfitt að brjóta saman þvott bara með vinstri, þó maður sé fatlaður (örvhentur) eins og ég.

Í gærkveldi var farið að flæða upp úr þvottahúsinu þannig að til setunar var boðið og þá var nú spennandi hvað í boði væri á skjánum.

Datt ég þá heldur betur í lukkupottinn. Nú hefur nefnilega smekkleysan og tilfinningaklámið náð nýjum hæðum í glænýjum veruleikaþætti sem birtist á skjáeinum í gær. Það er meistaraverkið The Swan (Svanurinn) sem um ræðir en þar eru ljótar, feitar, skakk-tanna, luralegar, kiðfættar stúlkukindur með sjálfsálit á stærð við meðalrykmaur settar í einangrun þar sem engir speglar eru í 3 mánuði. Þar mega þær ekki vera í sambandi við neinn nema maka sinn og er fylgst náið með þeim samskiptum, sérstaklega þegar brestir koma í sambandið vegna aðskilnaðarins.
Í einangruninni eru þær látnar leggjast undir svissneskan vasahníf, öll blöðin, hjá einhverjum ofurplastlækni (sem btw gæti verið understudy fyrir flesta Davida Hasselhoffa veraldarinnar, allt á honum þráðbeint og upppumpað... hvernig ætli standi á því I wonder..), þær fara í nefaðgerð, kinnaaðgerð, undirhökuaðgerð, augnaaðgerð og varaaðgerð, tannréttingar, fitusog og brjóstastækkun. Sumsagt allt sem nafni má nefna skorið snyrt og snurfusað.
Svo eru þær látnar svitna soldið í ræktinni því það náðist ekki allt með fitusugunni, öll hár af þeim samviskusamlega plokkuð nema þessi efstu sem eru svo greidd, stríðsmálningunni slett á og þeim troðið í kveldkjóla áður en þær eru sýndar, bæði almenningi og sjálfum sér í sérstakri athöfn.
Þar er mikið grátið og titrað og OH I FEEL SO BEAUTIFUL! hljómar aftur og aftur þegar meðaumkunarfullur kynnirinn spyr spurninga eins og So how do you feel? eða So what do you think? og allir læknarnir og sálfræðingarnir og hárgreiðsludömurnar standa í hring, óa og æja og dást að sköpunarverki sínu.

Þetta er sko ekki búið. Eftir þetta er svo ÖNNUR valin til að halda áfram og taka þátt í FEGURÐARSAMKEPPNI sem er haldin þegar allir keppendur hafa lokið fyrstu umferð, þeas ein valin úr hverjum þætti. Þetta orsakar auðvitað annað táraflóð hjá báðum keppendunum, af mismunandi ástæðum þó. Og síðasta tilfinningaklámsbylgjan dynur á okkur þegar aðstandendur þeirrar sem vann ekki koma í hús og fá að hitta "the new me".

Yfir þessu sat ég sumsagt í gær með aumingjahrollinn og ógeðsklígjuna og skemmti mér stórfenglega.

Þó var hápunktur kvöldsins auglýsingahléð beint á eftir þeim hluta þáttarins þar sem uppskurðirnir voru sýndir (og sko ALLT látið flakka, ekkert dregið undan). Þá birtist á skjánum auglýsing frá Nettó þar sem er svínakjötsútsala um þessar mundir með tilheyrandi slögum, hakki og gúllasbitum.

Þá var mér nú allri lokið og ég dó úr hlátri.

(Þetta blogg er sumsagt beint úr hreinsunareldinum)

(Kemur á óvart hvað það er góð tölvuaðstaðan hérna btw)

hér er meira um keppnina, frábær grein..

Kelly fyrir..

Rachel fyrir..

og hér eru þær svo!