Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

föstudagur, janúar 14, 2005

Blámann - in memoriam

Móðir okkar systkina var alla tíð gífurlega mikið á móti því að fá gæludýr. Við áttum aldrei ketti né hunda enda ekki skrýtið þar eð það að eiga 4 börn, bíl og einbýlishús í Garðabænum á eintómum opinberum launum var og verður orsök ógurlegs vinnuálags. Ekki mikill tími né orka eftir til að þrífa eftir eitthvað loðið, slefandi, gjammandi (eða breimandi ef svo ber við) kikvendi.

Ekki dóu þó bræður mínir elskulegir ráðalausir og vældu út ýmislegt smálegt eins og sjálfétandi gullfiska og svo eftir að þeir voru búnir, páfagauk. Þetta var með þeim skilyrðum að við börnin sæjum alfarið um þrif eftir dýrið og að hann yrði mestan part í búrinu sínu. hardíharhar..

Við fórum í gæludýrabúð og völdum fuglinn, hann var pínulítill papagúi, blár á lit og fékk nafnið Blámann eftir einhverjum fíl í sjónvarpinu að mig minnir. Hann var nú frekar ræfilslegur svona til að byrja með og tókst á strax á kaupdegi að gera fyrsta skandalinn sinn, hann náði að fljúga bak við skáp heima hjá ömmu og láta okkur bögglast við það að ná honum í um 3 klukkutíma eða svo. Pabbi náði honum að lokum með því að láta hann setjast á einn fingur og klemma annan yfir lappirnar á honum og setja hann þannig inn í búr. Blámann settist eftir þetta ALDREI á stakan putta.

Hófust nú allskyns þjálfunarbúðir fyrir fuglinn og var farið eftir kúnstarinnar reglum við að kenna honum að tala. Þarna húkti greyið hnípinn undir hálfu handklæði inni í búrinu sínu og hlustaði á okkur þylja "Blámann" allan daginn. Datt auðvitað ekki í HUG að vera að herma þetta eftir okkur.

Blámann var strax frá upphafi frekar mikið laus úr búrinu. Kom svo að því einn daginn að Hlín vinkona hennar mömmu var í mat og eftir matinn var sest inn í stofu og boðið upp á kaffi og koníak. Blámann var forvitinn að eðlisfari og strax orðinn mikill lífskúnsner þannig að þarna sá hann sér leik á borði, settist á koníaksglasið hennar Hlínar og fékk sér nokkra sopa. Ráfaði það sem eftir var kvölds um stofuborðið, segjandi í sífellu: "Blámann.. Blámann.."
Var hann eftir þetta mikill drykkjufugl, og það sem verra var, líka stórreykingafugl. Mamma reykti pakka af Winston á dag á þessum tíma og þegar hún sat við eldhúsborðið að fá sér sígarettu kom Blámann á öxlina á henni og gleypti reykinn í gríð og erg.

Eftir koníaksatvikið var ekki nokkur leið að þagga niður í fiðurfénu. Hann talaði óvenju mikið, var með orðaforða upp á nokkra tugi orða og fannst okkur sérstaklega skemmtilegt að kenna honum sniðuga frasa. Þó var mest í uppáhaldi hjá honum "komdu og KYSSTU mig!" og "eelsku kallinn!". Var mjög notalegt að fá svona kveðju þegar maður kom heim úr skólanum. Sérstaklega minnisstætt var þegar séra Bragi Friðriksson kom í heimsókn heim og Blámann tók á móti honum í dyrunum, settist á öxlina á honum og sagði: "komdu og KYSSTU mig, eeelsku kallinn!"

Blámann hermdi líka eftir útvarpinu. Það var yfirleitt skilið eftir í gangi fyrir hann þegar við vorum ekki heima og þegar vel lá á honum mátti heyra hann tala í mismunandi tónhæðum eitthvað bull og inn á milli söng hann vel valin lög. Það verður þó að viðurkennast að hann afrekaði það að vera sá eini í fjölskyldunni sem var vita laglaus, enda jú ekki blóðskyldur okkur.

Við vildum auðvitað monta okkur af þessum óvenjulega gauk þegar gesti bar að garði en ekki gekk það nú of vel, Blámann samkjaftaði sko ekki þegar fólk var að tala en þegar allir þögnuðu til að hlusta á hann þagnaði hann auðvitað líka og horfði á okkur í forundran.

Blámann var þrifinn fugl og fannst honum skemmtilegast að þrífa hnökra af sokkum við mikið kitl viðkomandi og svo þreif hann tennurnar í okkur.
Einnig fannst honum sniðugt að taka til á stofuborðinu, ef þar var t.d. spilastokkur gat hann dundað sér við að taka eitt og eitt spil í gogginn, rölta með þau fram á brúnina og láta þau gossa fram af. Þegar stokkurinn var búinn var fuglinn ánægður með sig og fór að huga að öðru, sá hvað var draslaralegt á gólfinu og tók að ná í eitt og eitt spil þaðan og fljúga með aftur upp á borð.

Blámann var algjör snillingur og yndislegt gæludýr og hef ég aldrei frétt af jafn kláru eintaki af papagúa og honum. Ég gæti haldið lengi áfram að rifja upp gjörðir þessa vinar okkar en læt staðar numið hér. Kannski skrifa ég seinna framhald, það er aldrei að vita.Þessi er frekar líkur Blámanni okkar, en þetta er nú ekki hann.
Bara einhver fugl útí heimi.