Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

föstudagur, september 24, 2004

únglíngurinn ísland

Hún Lára Stefáns sem er að kóreógrafa hjá okkur er að flytja til Englands og ég fór að tala við hana um af hverju mér hefði liðið svona vel í London.
Auðvitað eru ýmsar ástæður fyrir því, mér finnst stórkostlegt að geta horfið inn í fjöldann þar sem ég virðist vera mun spéhræddari hér.. t.d. myndi ég aldrei fara óuppdubbuð í bæinn.. gæti það bara ekki og veit alveg að það er helvítis hjóm og óþarfa snobb.

En svona er ég bara gölluð. Allt í fína með það sosum.

Annað var þessi ótrúlegi suðupottur þar sem allt gengur. Og allt ER í gangi. Fíla það í tætlur..

En komst svo að lokum að aðalniðurstöðunni og mér til mikillar undrunar fattaði ég að það var alls ekki London sem var að búa til þessa ánægjutilfinningu hjá mér heldur hreinlega að vera EKKI á Íslandi.

Nú skal ég skýra þetta betur út. Ég get alveg fengið grænar bólur af þessu endalausa lífsgæðakapphlaupi, ofneyslu og eiginhagsmunapoti sem viðgengst hérna á skerinu.
Ég hef fengið nóg af því að hér er engin þjóðfélagsvitund heldur hugsar bara hver um rassinn á sjálfum sér, eins og sést berlega á blaðaskrifum misvitra þöngulhausa í yfirstandandi kennaraverkfalli. Nóg af því að það þyki sjálfsagt mál að skulda hundruð þúsunda í formi yfirdrátta, bílalána, vísaraðgreiðslna sem á endanum bitnar bara á bankareikningnum okkar sem reynum að haga okkur skynsamlega í fjármálum. Nóg af því að fólk geti aldrei látið nokkurn skapaðan hlut á móti sér eða reynt að eignast hlutina á heiðarlegan hátt. Nóg af því að fólk eigi allt.. og eigi svo ekkert í því. Nóg af frekjunni, yfirganginum, ókurteisinni og einstaklingshyggjunni.

Fór í framhaldinu af þessu að hugsa um af hverju þetta sé svona og komst að því að Ísland er unglingur. Þjóðfélagið er svo ungt að við hreinlega erum ekki ennþá búin að læra að hegða okkur á siðlegan hátt. Við kunnum bara alls ekki að höndla þessi lífsgæði sem eru búin að hellast yfir okkur á svona stuttum tíma.

Þess vegna leið mér vel í London.

Hún er orðin fullorðin.