Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Tjéllingar



Alveg frá því við vorum litlar höfum við Elín vinkona verið að æfa okkur í að vera kellingar. Vaknaði þessi áhugi af óvenju góðu aðgengi okkar að þesslags verum á Flötunum í Garðabæ.

Til þess að verða boðleg kelling verður maður að vera duglegur að æfa sig. Hér á eftir fara nokkrar aðferðir til þess, t.d. getur maður:

æft handahreyfingarnar (kaffibolli og sígó til skiptis, auk lagningarýfinga þess á milli), rembst við að finna rétta fótstöðu (önnur löppin yfir hina og svo báðar huggulega teygðar til hægri) og svo er að reyna að ná málrómnum réttum. Hann er nefnilega aðal trikkið.

Til þess að öðlast réttan kellingamálróm skal gera eftirfarandi:

hallað skal undir flatt og hægra kjálkabeini ýtt fram um 2 centimetra
hægra munnvik skal togað niður upp að sársaukamörkum
vinstra munnvik skal togað niður hóflega
resónans skal fundinn aftarlega í munni, fyrir ofan tungurætur sem ýta skal upp til að loka að mestu leyti fyrir loftstreymi
talað skal á bilinu lítið a - einstrikað f, stranglega bannað er að tala á öðru tíðnisviði en þessu (undantekning er þó ef talað er á innsogi, sem mjög er mælt með)

Þegar takmarkinu hefur verið náð er rétt að ræða um hvað má ræða með þessum málróm.

Leyfileg umræðuefni eru: frægt fólk, kóngafólk, nágrannar (þó sérstaklega framhjáhald þeirra og holdafar) snyrtivörur (þó sérstaklega krem), hárgreiðslustofur, kaffi, kökur, megrunarkúrar, skottulækningar (sem fá auðvitað fullan stuðning), veikindi annarra, veikindi manns eigin, hvað Dabbi er mikið rassgat, hvað Gísli Marteinn er mikið rassgat og hvað Spaugstofan er fyndin. Einnig er leyfilegt að ræða þjóðfélagsmál og heimsmál svo lengi sem það er gert af tómri forheimsku og í æsifréttastíl.

Þegar ég er að skrifa þetta er ég að horfa á klass A kellingu út um gluggann.. með sígó í annarri og símann í hinni úti á svalatröppum, horfandi á gullinsækjann gera stykkin sín í garðinn.

Mér finnast kellingar æðislegar. Ég ætla að verða ein þegar ég verð stór.