Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

fimmtudagur, júlí 13, 2006

útvarp reykjavík

Stína sæta spurði mig áðan á msn hvort það væru ellimerki að vera alltaf með stillt á gufuna. Ég vildi nú ekki alveg gútera það en sagðist halda að þetta væri miklu frekar einhver fortíðarþrá, löngun til að hverfa aftur til barnæskunnar. Þegar maður heyrði stefið í morgunleikfiminni eða Gerði G. Bjarklind spila óskalög frá Sigríði Einarsdóttur frá Hlíðarendakoti í Fljótshlíð væri eins og aftur væri komið í eldhúsið hjá ömmu og von væri á ýsuflaki með kartöflum og bræddu smjöri á borðið eftir smástund.

Það er nefnilega svo mikilvægt á þessum tímum hraða og þriggja sekúndna athyglisgáfu að hafa eitthvað sem breytist ekki neitt og stenst tímans tönn. Eitthvað róandi og stabílt. Nú er ég sjónvarpssjúklingur dauðans þannig að ég er ekkert sérstaklega hlynt afturhvarfi til einnar stöðvar með frí á fimmtudögum og í júlí, ég er heldur ekki til að bakka neitt með samkeppni á vörumarkaði eða netvæðinguna og held því statt og stöðugt fram að að flestu leyti sé betra og auðveldara að vera til núna en fyrir bara tuttugu árum síðan.

Samt koma oft tímar þar sem gufan ræður ríkjum og ég nýt þess að sitja í eldhúsinu, bara mínu í þetta skiptið, drekka uppáhelling og kíkja í moggann. Kannski er það tilfinningin að vera barn sem kallar eða kannski er það manneskjurnar sjálfar, þeas ömmur mínar sem er gott að finna fyrir. Kannski er það einfaldlega það að á þessari stöð er hægt að finna ótrúlega skemmtilega og fræðandi þætti um allt og ekkert, skrifaða af frábærum pennum eins og þessum hér. Svo ekki sé minnst á tónlistarþættina, hvern öðrum betri. Hvað sem því líður er rás eitt ómissandi liður í mínu heimilishaldi.. og mér finnst ég bara ekki neitt vera gömul.