Nora Kornblueh - in memoriam
Kær og elskuleg vinkona mín, Nora Kornblueh, var borin til grafar í dag. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera beðin um að frumflytja útsetningar á gömlum íslenskum sálmalögum fyrir sópran og selló eftir Snorra Sigfús Birgisson á Listahátíð 1998. Ég hafði heyrt talað um Noru enda var hún sellókennari Ólafar vinkonu minnar en ég hafði aldrei hitt hana þegar ég mætti til fyrstu æfingar á Reykjavíkurveginn. Á móti mér tók ein fallegasta kona sem ég hafði séð. Það var eins og hún ljómaði innan frá, útgeislunin var slík að ég man varla eftir að hafa orðið fyrir öðrum eins áhrifum við fyrstu kynni. Breiða brosið hennar náði til augnanna og gott betur og hrafnsvart hárið ljómaði.
Hér var á ferðinni manneskja sem var greinilega góð í gegn. Ég man einmitt eftir því að ég lýsti henni við Ólöfu að hún væri eins og gull.
Ekki brá nokkurn tíma skugga á þessa mynd mína af Noru. Næstu árin á eftir störfuðum við töluvert saman, að mestu leyti með þetta sama verk og fleiri eftir Snorra. Ótrúlega minnisstæð er dásamleg vika sem við áttum í Skálholti árinu eftir að við hittumst fyrst, þar var Óskar maðurinn hennar með og Snorri og svo Dísa og Steif. Í erfinu áðan ræddi ég við Dísu og minntumst við báðar þessarar viku sem einnar þeirrar bestu sem við höfum upplifað.
Ekki síðra var að sitja með Noru í eldhúsinu á Reykjavíkurveginum, drekka stórkostlegt kaffi og tala um lífið og ástina á þann næma og leitandi hátt sem einkenndi Noru.
Síðastliðinn tvö ár voru afar slæm hjá Noru, hún veiktist illa og kvaldist mikið og var eins og skugginn af sjálfri sér. Nú er hún Nora mín komin á betri stað þar sem hún er hætt að finna til.
Ég sendi strauma mína þessa dagana til hans Óskars, samband þeirra var ótrúlega sterkt og ástríkt og mér til mikillar fyrirmyndar, og til drengjanna þeirra tveggja, Mikhaels og Arons Inga.
Nora mun alltaf eiga sér stað í hjarta mínu. Megi hún hvíla í friði.
<< Home