Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

húman(t)íska

Vegna fjölda áskorana:

Þegar maður er ungur og fullur af eldmóði er ekkert sem heillar jafnmikið og að fara í eitthvað indælt húmanískt fag í háskólanum. Allir vinir manns (sem vita nótabene ekki baun hvað þá langar að verða þegar þeir eru orðnir stórir) skjögrast út úr menntaskóla og beinustu leið í háskóla allra landsmanna (stóra gráa byggingin þarna rétt hjá díkód) og inn á skráningarskrifstofu þar sem velt er fyrir sér hvurt fagið eigi nú að velja. Íslensku? Kynjafræði? Kannski frönsku, mannfræði eða bókmenntir? Eða bara skella sér í drottningu ullartreflavefjandi pípusjúgandi menntskælinga, heimspeki.

Og svo er setið yfir kaffi og sígó daginn út og inn og spegúlerað í merkingum ljóðlína Gyrðis Elíasar eða þróun mbútú ættflokksins í Kenýa, rýnt í nýjustu þýðingu Ingibjargar á smásögum Dostojefskís eða rifist um kenningar Kants um efahyggju. Og þetta er gott og blessað og fallegt og allir á leiðinni að bjarga heiminum.