Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

sunnudagur, september 18, 2005

frh:

Af hverju ætli maður fái sér alltaf smakk í búðum þó að maður viti FULLVEL að í 95% tilvika finnist manni maturinn óspennandi og vondur? Þetta er auðvitað bland af eðlislægnri forvitni og matarfíkn.. hlýtur að vera, en einnig held ég að þetta sé einhver óstöðvandi bjartsýni, kannski í þetta sinn sé það gott!

Alversta dæmi um vanhugsað smakk sem ég hef lent í var eitt sinn í Bónus. Ég er yfirleitt mjög kurteis við ókunnuga og á því mjög erfitt með að neita fólki, t.d. finnst mér hryllilegt að segja nei takk við fatlaða eða blinda sem standa einhversstaðar og selja dót, þó ég sé þegar búin að kaupa viðkomandi drasl. Allavega, ég ætla inn í mjólkurkæli og þarf að ganga fram hjá ofurhressum manni í kokkabúning sem er með undarlegar brúnar klessur á bakka. Það voru ekki margir í búðinni og ég því auðveld bráð. Kemur í ljós að klessurnar eru bitar af lambabuffi (Langbestu Unnu Kjötvörurnar Á Markaðnum! Engin Aukaefni! Bara Hreint Kjöt Af Þeim Ágætu Skepnum, Lambi Og Soja!) Ég nálgast bakkann með varúð og hrygg í huga sting ég einum bita upp í mig... ÞVÍLÍKUR HRYLLINGUR!! Og ég ákvað í eitt skipti að vera bara hreinskilin við manninn. Hann kemur með sölupitchið og ég svara honum rólega.. "já en ég hugsa nú að ég eigi ekki eftir að kaupa þetta.. einfaldlega af því að mér finnst þetta eiginlega frekar vont." gaurinn bregst illa við og hreytir í mig " það er nú ekkert að marka þetta svona! Það þarf að hafa með þessu kartöflur og brúna sósu!"

Jesús.

Lít ég í alvörunni út fyrir að vera sjötíu og þriggja?