í fréttum er þetta helst:
Minningartónleikar um séra Árna Berg Sigurbjörnsson verða haldnir í Áskirkju laugardaginn 5.nóvember kl. 17.00.
Á tónleikunum mun Kór Áskirkju flytja íslenska efnisskrá sem byggð er á ættjarðarlögum ásamt kirkjulegri kórtónlist. Þá munu koma fram einsöngvararnir Jóhann Friðgeir Valdimarson, Hallveig Rúnarsdóttir, Jóhönna Ósk Valsdóttir og Oddný Sigurðardóttir og verða þau einnig á íslenskum nótum. Þau eru öll fyrrverandi og núverandi meðlimir í kór Áskirkju. Stjórnandi og píanóleikari er Kári Þormar.
Kór Áskirkju var stofnaður í núverandi mynd haustið 2001 en í honum eru um 20 tónlistarmenntaðir söngvarar sem hafa flestir verið með frá upphafi. Nú fyrir skömmu gaf kórinn út geisladiskinn Það er óskaland íslenskt, sem hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda, og var tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Kórinn hefur haldið fjölda tónleika í Reykjavík og nágrenni auk tónleikaferðar um Norðurland síðastliðið sumar.
Séra Árni Bergur Sigurbjörnsson þjónaði sem sóknarprestur í Ólafsvíkurprestakalli frá 1972 til 1980 og í Ásprestakalli í Reykjavík frá 1980. Hann var mikilsmetinn prestur og fræðimaður sem geislaði frá sér hlýju og mannkærleika hvar sem hann kom. Hann lést 17. september síðastliðinn. Kór Áskirkju átti alla tíð einstaklega gott samstarf við séra Árna Berg og studdi hann starf kórsins með ráðum og dáð. Því vill kórinn sýna þakklæti sitt með þessum minningartónleikum og styrkja í leiðinni gluggasjóð Áskirkju, en allur ágóði af tónleikunum mun renna í hann.
<< Home