Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

sunnudagur, október 08, 2006

Hallveig og Jón í Búðaleik


Ég ákvað að bjóða mínum elskulega ektamanni í smá rómantískt gettavei þar sem þessi elska á afmæli í lok mánaðar.. það er bara þannig með Væluna að hún er frekar bissí um helgar þannig að við skelltum okkur núna um helgina.

Ég hringdi því um daginn og bókaði á Hótel Búðum á Snæfellsnesi því mig hefur alltaf langað að gista þar en aldrei látið verða af því.. við höfum alltaf heyrt tómt hrós um staðinn og hlökkuðum því mikið til.

Það er skemmst frá að segja að staðurinn uppfyllti allar væntingar okkar og meira til. Hótelið er frábært, herbergin dásamlega persónuleg og falleg, þjónusta til fyrirmyndar og veitingastaðurinn í hæsta klassa, alveg á pari við flottustu staðina í bænum.

Allt bliknar þetta þó við hliðina á staðnum sjálfum. Náttúrufegurðin á þessum stað er sjaldséð en best var auðvitað þegar jökullinn birtist í sinni tignarlegu dýrð. Önnur minnisverð augnablik voru að ganga fram á hvalsbeinagrind á "gullströndinni", fylgjast með hrafnapari að leika sér í vindinum yfir hraunbreiðunni og að horfa yfir skeljaströndina og sjóinn baðað geislum fulla tunglsins sem gladdi okkur í nótt. Ógleymanlegt, ég mæli með þessu til að ná sér í afslappelsi og kvalitettíma með makanum. Sem er ómetanlegt.