Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

þriðjudagur, september 12, 2006

Blaðlestur

búið að vera óvenjumikið af freudian slip of the eye yfir blöðum dagsins. Fyrst fletti ég heilsukláfi Blaðsins (sem er farið að birtast hér með mogganum mér til ótæpilegrar geðvonsku, sökum þess hvað ég var lengi að fá póstinn til að skilja að ég vildi ekki þennan snepil) . Þar er eigandi Yggdrasils í viðtali með yfirskriftinni Einfalt að breyta um lífsstíl. Frú Væla las að sjálfsögðu Erfitt að breyta um lífsstíl og jánkaði því með sjálfri sér í morgunsárið.

Þá tók mogginn við og þar blasir við á 45. síðu dálkur sem heitir spurt er.. Ég renndi yfir fyrstu spurninguna sem fjallar um næsthæsta punkt landsins og vissi ekki svarið, fer því í svörin fyrir neðan og les Hangandi. Ha? Næsta spurning er að hverju Michael Moore sá ágæti heimildarmyndadúddi ætli að beina spjótum sínum að næst. Svar: Landsspítali/Háskólasjúkrahús. Nú grunti mig að eitthvað hefði þeim fatast greyjunum og þau sett bandvitlaus svör við, sem kom svo berlega í ljós í síðustu þremur spurningunum þar sem íslenska stúlkan sem er atvinnumaður (atvinnustúlka?) í blaki heitir Jóhannes Skírari þar sem Jóhannes og Jón séu sama nafnið, næststærsta eyjan við við Ísland heitir Sveinn Björnsson og stærsta hraun á landinu Margrét Lára Viðarsdóttir.

Vakti þetta mikla kátínu mína og ég flissaði yfir þessu eins og fífl.. það var svo ekki fyrr en ég settist hér við bloggið að ég fattaði auðvitað að þetta eru svörin við spurningum GÆRdagsins.. duh..

Held að ljósa hárið og hvíti Yarisinn séu farin að hafa heldur mikil áhrif.