jónsleifsdagurinn mikli
er í dag, Eddan verður auðvitað mergjuð kl 5, hrikalega verður gaman! og já, ég veit að ég er búin að blóta þessu í sand og ösku síðustu vikur en svo þegar á hólminn er komið hlakka ég rosalega mikið til. Þessi mússík er auðvitað svo stórfengleg að hún væri heimsfræg fyrir löngu ef hún væri ekki svona óflytjandi.
En þetta er ekki eina jónsleifs giggið mitt í dag, ónei. Ég fór áðan niður í Dómkirkju til að syngja Vertu Guð faðir í skírn og fannst það bara skemmtileg upphitun fyrir Háskólabíó. Mæti þarna galvösk beint úr klippingu og (af)litun (mín sko orðin enn meiri blondína) og þar uppgötvast, okkur Marteini til mikillar skelfingar að það eru engar nótur á svæðinu! ég er löngu hætt að þurfa nótur af þessu lagi og hélt að Marteinn væri með sínar eigin. Sem hann var ekki því hann hélt að ég myndi koma með.
Stress dauðans, ég hringi út um allan bæ (þegar hér var komið var skírnin löngu byrjuð), hringi fyrst í Mörtu frænku sem svarar ekki, svo í Tótu Guðmunds sem svarar ekki heldur og nú er heldur betur farið að hellast í mig panikkið. Næ loks í elsku kallinn hann Steina sem hendist heiman frá sér niður í Neskirkju að ná í nóturnar og brunar þaðan niður í Dóm . Hann hendist svo á harðaspretti upp á loft þar sem við Marteinn erum í geðveikiskasti að fletta í gegn um gamla nótnabunka svona á meðan skírnin sjálf fór fram, þar sem við fundum fyrstu, þriðju og fjórðu síðu úr nótnabókinni, allar nema þessa einu sem þetta tiltekna lag er á.
Ég get svarið það, þvílíkt og annað eins stress! Söngurinn gekk svo auðvitað bara mjög vel og allt það en þetta verður lengi í minnum haft. En.. fall er fararheill.
<< Home