hjá Láru Hönnu í dag:
Ó, þjóð mín þjóð
Hvar ertu?
Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?
Hvar er samviska ykkar?
Hvar eru þessar tugþúsundir sem eru í viðráðanlegri fjarlægð, við sæmilega heilsu og ættu að mæta á Austurvöll klukkan 15 á laugardögum og tjá óánægju sína með nærveru sinni þar? Eruð þið í Kringlunni eða Smáralind? Heima að horfa á enska boltann eða þrífa? Í sundi eða húsdýragarðinum? Hvar eruð þið?
Það eru 168 klukkutímar í einni viku. 8 tíma svefn á nóttu eru 56 tímar. 10 tímar í vinnu og ferðir 5 daga vikunnar eru 50 tímar. Eftir eru 62 tímar í viku. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið getið ekki séð af 1 klukkutíma til að mæta á Austurvöll og tjá með nærveru ykkar að þið séuð ekki sátt við ástandið í þjóðfélaginu og hvernig er tekið á því?
Ég bara næ þessu ekki.
Hvort ætli sé mikilvægara - hvort Manchester United vinnur Chelsea í dag eða hvort þið eigið þak yfir höfuðið til að horfa á leik eftir nokkra mánuði? Hvaða máli skiptir hvort þið farið í sund klukkan tólf eða þrjú? Eru Kringlan og Smáralind ekki opnar á öðrum tímum en milli þrjú og fjögur á laugardögum? Hvar í andskotanum eruð þið?
Hvernig réttlætið þið það, að láta okkur hin - par þúsund manns eða svo - heyja baráttuna fyrir ykkur? Hvað gerir ykkur svo sérstök að þið séuð undanþegin því að taka þátt í að berjast fyrir framtíð ykkar sjálfra, barnanna ykkar og barnabarnanna? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið berið ekki hönd yfir höfuð ykkar og látið aðra um að mæta á mótmælafundi fyrir ykkur? Hvar er sú gagnrýna hugsun sem ykkur var gefin í vöggugjöf?
Hvað ætlið þið að segja barnabörnunum ykkar þegar mótmæla- og borgarafundirnir eru komnir í sögubækurnar? "-Varst þú þarna, afi? -Nei, ég var heima að horfa á enska boltann. -En þú, amma? -Nei, ég fór alltaf í Kringluna á laugardögum." Eða ætlið þið kannski að ljúga og segjast hafa tekið þátt í mestu hugarfarsbyltingu Íslandssögunnar án þess að hafa lyft litlafingri eða mótmælaspjaldi? Hvar er réttlætiskennd ykkar?
Ég bara skil ykkur ekki.
Eruð þið virkilega ekki búin að fatta hvað er á seyði? Horfið þið ekki eða hlustið á fréttir? Vitið þið ekki að það er búið að arðræna þjóðina, stjórnvöld hylma yfir með sökudólgunum og enginn er látinn sæta ábyrgð? Vitið þið ekki að heilbrigðisráðherra er að leggja heilsugæsluna í rúst til að einkavæða hana og gefa auðmönnum - að hann hefur ekkert lært? Hvar eruð þið, heilbrigðisstéttir þessa lands á frívakt á laugardögum?