Væla Veinólínó

geðsveiflur dívunnar..

þriðjudagur, ágúst 16, 2011

Vinarkveðja

„Ég er á leiðinni, keypti mér flugmiða“. Þennan tölvupóst fékk ég frá Gunnari Hrafni í Stuttgart þegar ég var ólétt að flytja heim frá London. Hann birtist svo nokkrum dögum seinna eins og hvíti stormsveipurinn sem hann var, á meðan við Jón þrifum sitthvora skúffuna í náttborðinu kláraði hann eldhúsið. Við tókum að okkur að þurrka af gluggakistunni í stofunni og á meðan kláraði Gunnar Hrafn baðherbergið. Mættur frá Þýskalandi til að hjálpa okkur, óumbeðinn að sjálfsögðu.

Svona var vinur minn. Örlátur á tíma og væntumþykju. Fáránlega duglegur. Snyrtipinni fram í fingurgóma (verst að ekki var farið að örla á þeim eiginleika á sambýlisárum okkar Þóru Bjarkar og hans í Skaftahlíð) og alltaf óaðfinnanlega klæddur. Klár, svo ótrúlega ljóngáfaður að þar höfðu fáir tærnar þar sem hann geymdi hælana. Brimandi af réttlætiskennd þannig að eftir var tekið. Viðkvæmur en samt svo sterkur.
Það orð sem lýsir Gunnari Hrafni samt kannski best er einstakur. Hann skildi allstaðar eftir sig spor þar sem hann kom og þeir sem kynntust honum eiga eftir að muna hann alla tíð.

En hann gat líka verið skapstór og stundum stórorður þannig að hann var ekki allra. En þrátt fyrir að það væri sú hlið af honum sem margir þekktu einungis var það bara yfirborðið því undir niðri var eitthvað það mesta ljúfmenni sem ég hef kynnst. Vinur minn sem alltaf var til staðar til að hlusta, hugga, gleðjast, hlæja og njóta augnabliksins. Þó hann væri kannski ekki alltaf jafn nálægur og þau ár sem við vorum svo samrýmd að óhugsandi var að mæta í fjölskylduboð nema hitt væri með eða að sjálfsagt væri að við værum herbergisfélagar í kórferðum (japönskum húsfreyjum til mikillar skelfingar þegar í ljós kom að við værum ekki par), þá hélst samband okkar alltaf lifandi, alltaf til staðar þegar á reyndi.

Hann var heimshornaflakkari. Ég þurfti stundum að hafa mig alla við að fylgjast með því hvar hann var staddur í veröldinni, einn daginn í Santa Cruz að skrifa doktorsritgerð og þann næsta í York við rannsóknir. Við kennslu í Þýskalandi, Danmörku og Noregi. Síðastnefnda landið reyndist honum kannski best því þar kynntist hann ástinni sinni henni Önnu-Lenu og þá glöddumst við vinir hans óumræðinlega. Ekki spillti fyrir að með henni kom í kaupbæti elskulegi drengurinn hann Tycho. Hamingja þeirra varð svo fullkomnuð þegar Ragna litla bættist í fjölskylduna fyrir þremur árum. Þau höfðu svo fundið sér stað í smálöndum Svíþjóðar þar sem þeim leið öllum óskaplega vel og þau ætluðu sér framtíðarbúsetu.

Því þetta var hlutverkið sem við óskuðum öll að Gunnar Hrafn fengi að upplifa, við vinkonurnar vorum vanar að segja að ef það væri eitthvað sem við vissum þá væri það að Gunnar Hrafn yrði frábær pabbi. Og það var hann svo sannarlega, ljúfur en samt strangur, alltumvefjandi án þess að vera yfirþyrmandi og aldrei óþolinmóður eða pirraður. Hann var foreldrið sem við reynum öll að verða auk þess að vera traustur og ástríkur eiginmaður og missir Önnu-Lenu og barnanna er ólýsanlegur.

Gunnar Hrafn var húmoristi af guðs náð. Hlátur hans var sá mest smitandi sem ég hef heyrt og hann átti nóg af honum. Nóttina eftir að mamma hans hringdi í mig með þessar skelfilegu fréttir settist ég niður og las öll sendibréfin frá honum í gegn um árin en þau voru eini kosturinn við það að búa í sitthvoru landi í öll þessi ár. Og ég hló svo tárin streymdu og blönduðust við tregatárin sem fyrir voru.

Það sem kannski einkenndi Gunnar Hrafn mest hér á landi síðustu ár var barátta hans gegn misrétti. Hann barðist hatrammlega gegn ójafnrétti og gagnrýndi staðalímyndir kvenna og karla eins og þær birtast gjarnan í fjölmiðlum. Barátta hans á því sviði var nauðsynleg og tímabær og henni skal haldið áfram í hans nafni hvað sem tautar og raular.

En þó svo baráttujaxlinn Gunnar Hrafn hafi verið fyrirmynd allra jafnréttissinna sakna ég fyrst og fremst vinar míns. Einstaka vinar míns.

Elsku Anna-Lena, Ragna, Tycho, elsku Inga mín, María Hrönn, Gígja, Björn og fjölskyldur, ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Hvíldu í friði elsku Gunnar Hrafn. Líf mitt verður aldrei samt án þín.

þín Hallveig

fimmtudagur, janúar 22, 2009

þjóð mín takið eftir:

Þessi þörfu skilaboð ganga nú meðal mótmælenda, að frumkvæði anarkista og með fullum stuðningi dagblaðsins Nei., meðal annarra:

„Engin mótmæli föstudagskvöld eða laugardagskvöld. Látum ekki djammmenninguna blandast mótmælunum og byltinguna blandast fylleríi. Látið ganga sem víðast.“

fundið hjá Hildigunni

Áfram Ísland!

laugardagur, janúar 10, 2009

FRÁBÆR pistill

hjá Láru Hönnu í dag:

Ó, þjóð mín þjóð

Hvar ertu?
Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?

Hvar er samviska ykkar?

Hvar eru þessar tugþúsundir sem eru í viðráðanlegri fjarlægð, við sæmilega heilsu og ættu að mæta á Austurvöll klukkan 15 á laugardögum og tjá óánægju sína með nærveru sinni þar? Eruð þið í Kringlunni eða Smáralind? Heima að horfa á enska boltann eða þrífa? Í sundi eða húsdýragarðinum? Hvar eruð þið?

Það eru 168 klukkutímar í einni viku. 8 tíma svefn á nóttu eru 56 tímar. 10 tímar í vinnu og ferðir 5 daga vikunnar eru 50 tímar. Eftir eru 62 tímar í viku. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið getið ekki séð af 1 klukkutíma til að mæta á Austurvöll og tjá með nærveru ykkar að þið séuð ekki sátt við ástandið í þjóðfélaginu og hvernig er tekið á því?

Ég bara næ þessu ekki.

Hvort ætli sé mikilvægara - hvort Manchester United vinnur Chelsea í dag eða hvort þið eigið þak yfir höfuðið til að horfa á leik eftir nokkra mánuði? Hvaða máli skiptir hvort þið farið í sund klukkan tólf eða þrjú? Eru Kringlan og Smáralind ekki opnar á öðrum tímum en milli þrjú og fjögur á laugardögum? Hvar í andskotanum eruð þið?

Hvernig réttlætið þið það, að láta okkur hin - par þúsund manns eða svo - heyja baráttuna fyrir ykkur? Hvað gerir ykkur svo sérstök að þið séuð undanþegin því að taka þátt í að berjast fyrir framtíð ykkar sjálfra, barnanna ykkar og barnabarnanna? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið berið ekki hönd yfir höfuð ykkar og látið aðra um að mæta á mótmælafundi fyrir ykkur? Hvar er sú gagnrýna hugsun sem ykkur var gefin í vöggugjöf?

Hvað ætlið þið að segja barnabörnunum ykkar þegar mótmæla- og borgarafundirnir eru komnir í sögubækurnar? "-Varst þú þarna, afi? -Nei, ég var heima að horfa á enska boltann. -En þú, amma? -Nei, ég fór alltaf í Kringluna á laugardögum." Eða ætlið þið kannski að ljúga og segjast hafa tekið þátt í mestu hugarfarsbyltingu Íslandssögunnar án þess að hafa lyft litlafingri eða mótmælaspjaldi? Hvar er réttlætiskennd ykkar?

Ég bara skil ykkur ekki.

Eruð þið virkilega ekki búin að fatta hvað er á seyði? Horfið þið ekki eða hlustið á fréttir? Vitið þið ekki að það er búið að arðræna þjóðina, stjórnvöld hylma yfir með sökudólgunum og enginn er látinn sæta ábyrgð? Vitið þið ekki að heilbrigðisráðherra er að leggja heilsugæsluna í rúst til að einkavæða hana og gefa auðmönnum - að hann hefur ekkert lært? Hvar eruð þið, heilbrigðisstéttir þessa lands á frívakt á laugardögum?

miðvikudagur, desember 31, 2008

ein spurning..

Af hverju finnst þessum sem eru að mótmæla við Borgina það slæmt að fréttamenn spyrji þessa stjórnmálabavíana spjörunum úr? Er ekki einmitt bara fínt að þetta lið sé aðeins grillað?

Sumt skil ég hreinlega ekki alveg.

Mér finnst líka furðulegt að vera á annan bóginn sífellt að kvarta yfir því að fjórða valdið - fjölmiðlarnir séu ekki að sinna sínu hlutverki (sem ég er reyndar gersamlega sammála)og svo á hinn bóginn að ráðast á tækjabúnað annarrar sjónvarpsstöðvarinnar þegar hún er einmitt að reyna að sverma að liðinu..

já, nei, sumt skil ég barasta ekki.

Annars segi ég bara við báða lesendur mína gleðilegt nýtt ár.. ekki veitir víst af!

laugardagur, nóvember 29, 2008

síðasta blogg

var tekið út og fært á flettismettuna..

laugardagur, nóvember 08, 2008

ég játa...

samkvæmt áskorun Varríusar að ég hef undanfarin ár:

ákveðið að hætta að lifa eins og námsmaður og keypt húsgögn í Ikea og Tekk kompaní fyrir hátt í 200.000 lesist tvöhundruðþúsund krónur (hneyksli!)

Tekið árið 2007 að láni fyrir (þá) tveggja ára gömlum toyota yaris 900.000 kr í erlendu láni.. eftir að vera tveimur árum áður búin að kaupa út í hönd 3 ára gamlan daewoo sem við gerðum við fyrir 600.000 kr á einu ári.. og þurftum svo að henda ónýtum.. :P (svívirðilegt!)

farið tvisvar sinnum til útlanda með vinkonum mínum í tvo daga í senn á síðustu tveimur árum (fyrra skiptið tilboð hjá flugleiðum til London, seinna skiptið gist í sjúkraliðaíbúð í kaupmannahöfn)og jafnvel borðað á sushistöðum í báðum borgunum! (bruðl!)


eytt alltof (hmmm og ég meina alltof.. ekkert djók hér) miklum peningum í þau ágætu fyrirtæki te og kaffi og kaffitár.

mea culpa, mea culpa, mea maxima culpa..

fimmtudagur, október 30, 2008

Kjallinn

minn sætasti af öllum á afmæli í dag.. til hamingju með það ástin mín!

Er á leiðinni til köben í dag þannig að við RDJ rifum okkur upp í morgun og elduðum ammrískar pönnukökur og kaffi fyrir Jóninn sæta fyrst að ég verð ekki heima í kvöld til að elda steik. Hún kemur bara næstu helgi!

Bar pönnukökurnar fram með jarðarberjum, banönum og hlynsýrópi. Það var ekki vont. Morgunverður custom made fyrir kjallinn..

þriðjudagur, október 21, 2008

Dagur raddarinnar í Gerðubergi




Það verður mikið um að vera á Degi raddarinnar sem verður haldinn í Gerðubergi 26. október 2008 á vegum FÍT og FÍS. Yfirskrift dagsins er: ..."og allir vilja vera á sviðinu" ! en það er titill myndar eftir Karólínu Lárusdóttur sem verður kynningarmynd dagsins.

Þá gefst almenningi kostur á að skoða sig um í heimi sönglistarinnar og hlýða á vel á þriðja tug söngvara á einu bretti. Reynt hefur verið að blanda saman reynslubrýnum og ungum og "upprennandi" söngpípum. Dagskránni verður skipt í þrjá hluta:


Kl. 14 verður úrdráttur úr litaspjaldi raddarinnar í óperu, allt frá bassa upp í kólóratúr sópran, níu söngvarar syngja þekktar aríur: Ecco il mondo (Jóhann Smári Sævarsson), Nedda úr Pagliacci (Jón Svavar Jósefsson), Vesti la giubba (Jóhann Friðgeir Valdimarsson), Una furtiva lagrima (Gissur Páll Gissurarson), Stride la vampa (Nathalía Druzin Halldórsdóttir), Una voce poco fa (Sigríður Aðalsteinsdóttir), Vissi d'arte (Elín Ósk Óskarsdóttir),O mio babbino caro (Hulda Björk Garðarsdóttir) og Næturdrottningin (Sigrún Hjálmtýsdóttir).


Kl. 15.10 verður farið út um víðan völl í stíl, allt frá fimmundasöng (sönghópur Árna Heimis Ingólfssonar) yfir í renessans (Jóhanna Halldórsdóttir), barokk; Jauchzet Gott in allen Landen - Bach (Hallveig Rúnarsdóttir), enskt þjóðlag; The Foggy Foggy Dew (Eyjólfur Eyjólfsson), franska mélodie; Mandoline - Fauré (Hlín Pétursdóttir), þýskt ljóðalag; Die Forelle - Schubert (Bragi Bergþórsson), amerískt söngleikjalag; Ol' Man River - Kern (Keith Reed), raddgjörning (Sverrir Guðjónsson), samtímatónlist; Sequenza - Berio (Marta Halldórsdóttir).


Kl. 16.30 kynnir Jónas Ingimundarson íslenska sönglagið og fær til sín söngvara til að taka dæmi. Þeir eru: Auður Gunnarsdóttir, Davíð Ólafsson, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Snorri Wium og Þóra Einarsdóttir.


Auk þess munu Kristjana Stefánsdóttir, Jóhanna Þórhallsdóttir, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Signý Sæmundsdóttir og Bergþór Pálsson flytja hitt og þetta - jass/latino/Kurt Weill/Fúsalög - frammi á gangi í hléum.

laugardagur, október 04, 2008

p.s.

Annars er maður orðinn svo gegnsýrður af þessum tíðindum öllum (þrátt fyrir bjartsýni) að þegar ég las í dag að Arnarnesvegi hefði verið lokað var fyrsta hugsunin hvernig í ósköpunum ÞAÐ ætti að hjálpa fjármálunum... :D

perspektív

Jóhanna vinkona mín er að lesa bók um þjóðarmorðin í Rúanda og mælir með þeirri lesningu fyrir alla landsmenn þessa dagana ;) Það setur hlutina í alvöru perspektív..

Ég neita að láta þetta buga mig. Hagkerfi er ekkert annað en væntingastjórnun og þegar öll þjóðin hefur linnulaust talað sig í kreppu síðustu vikur og mánuði er ekkert skrítið að hér sé komin kreppa. Eða kreppa og kreppa, það er ekki eins og fólk sé að svelta eða sé komið á götuna, held að ég haldi mig við orðið hans Sigga bankastjóra og kalli þetta lausafjárþurrð (er það ekki annars ástandið sem skapast þegar gangnamenn finna ekki rollurnar?)

Sem betur fer virðast ýmsir hafa húmor fyrir ástandinu, ekki síst þulurinn í útvarpinu í gær þegar hann valdi síðasta lag fyrir hádegisfréttirnar:

"Vor hinsti dagur er hniginn"

Þá hló ég :)

fimmtudagur, september 11, 2008

hnotskurnarfyndiðbarn

eins og ekki hefur farið fram hjá áhangendum síðunnar á ég einstaklega fyndið barn.. tók mig til að fór að safna gullmolunum saman því það er svo einstaklega leiðigjarnt að þurfa að lesa í gegn um allt bloggið til að finna snilldina ;)
Fínt líka að hafa eitthvað til að skemmta sér yfir svona fyrst við virðumst enn vera á lífi! tíhí

Byrjaði á þriðja árinu og ætla að leyfa ykkur að njóta með:

sumsagt RDJ þriggja: (drumroll please)

Fyndna barnið eftir leikskólann:
Ragnheiður Dóra: Það var bara EINN sveppur í leikskólanum!
Mamma: Borðaðir þú hann?
Ragnheiður Dóra: nei.. mér finnst hann svo óóslekkur.

Fyndna barnið yfir grjónagrautnum:
Ragnheiður Dóra: það er súpa í matinn.
Mamma: nei, þetta er grautur.
Ragnheiður Dóra: Nei þetta er súpa!
Mamma: Nei, grautur.
Ragnheiður Dóra: Má ég segja eitt?
Mamma: já.
Ragnheiður Dóra: (syngur) þetta er súúúpaaa..

Fyndna barnið í mömmuholu:
Ragnheiður Dóra: Máney.. er hún í leikskólanum?
Mamma: já, Máney Rós.
Ragnheiður Dóra: ég var bara að grínast.

Fyndna barnið á klóinu:
mamma: pabbi þinn hefur sett þig í öfugar buxurnar..
Ragnheiður Dóra: Já, hann er svo öfugsnúinn.

Ragnheiður Dóra: Óskar henti drullu í Andreu Sif.
Mamma: það var nú leiðinlegt. En hvað varst þú að gera í dag?
Ragnheiður Dóra: nú, sinna Andreu Sif.

Ragnheiður Dóra: Mamma, þú verður að halda á mér, ég get ekki labbað sjálf því ég er svo þung.

Fyndna barnið í morgunsárið:
Ragnheiður Dóra: Mamma, finnst þér gott að hafa rúsínur í harmagrautnum?

Fyndna barnið í bílnum:
Ragnheiður Dóra: mamma, þú ert með lítið hár.
Mamma: er ég með lítið hár?
Ragnheiður Dóra: neeei þú ert með stórt hár. Ég ruglaðist.

Fyndna barnið eftir að pabbi hennar var búinn að skafa rúðurnar:
Ragnheiður Dóra: Pabbi, varstu að skúra ísinn?.

Fyndna barnið að syngja með Soffíu frænku:
Ragnheiður Dóra: Já pissum svei, ó pissum svei..

Fyndna barnið á þurrksvæðinu í sundi með pabba sínum:
Ragnheiður Dóra: DJÍSUS KRÆST hvað mér er kalt!

Fyndna barnið hjá afa:
Eftir að afi hennar var búinn að sækja lítinn leikfangakassa upp á hillu:
Ragnheiður Dóra: Það er gott afi að þú skulir vera svona sterkur.

Mamma að klæða fyndna barnið í leikskólanum áðan:
Ragnheiður Dóra: nei! gulu húfuna mína!
Mamma: viltu fara í gulu húfuna sem amma prjónaði?
Ragnheiður Dóra: já. Amma er snillingur.

Fyndna barnið að hátta með afa og ömmu í gærkvöldi:
Ragnheiður Dóra: Afi! þú ert sko ROSA kroppur!

Fyndna barnið á leiðinni heim í bílnum í dag:
Ragnheiður Dóra: Pabbi! veistu hvað verður í matinn hjá okkur!
Pabbi: nei, hvað?
Ragnheiður Dóra: það verður PASTA!
Mamma: nei það verður ekkert pasta, það verður kjúklingur í súrsætri sósu og hrísgrjón.
Ragnheiður Dóra: Nei. Mér finnst það ekki gott.
Mamma: Víst finnst þér það gott.. þú hefur oft borðað það.
Ragnheiður Dóra: Nei, mér finnst það ekki gott. Mér finnst ekkert gott nema pasta... og pönnukökur.

Fyndna barnið á Dýrunum í Hálsaskógi:
Mikki refur (að taka reykt svínslæri á bænum) : það stóð ekkert í lögunum að það væri bannað, er það nokkuð?
Börn í salnum: Neeei
Ragnheiður Dóra: Jú það er bannað! Ég er nú bara svo aldeilis hissa á þér Mikki!

Fyndna barnið við pizzuétandi pabbann:
Ragnheiður Dóra: og.. og á morgun er laugardagur og þá förum við í sund og kaupum svo pulsu og förum svo og kaupum nammi!
Pabbi: og má ég fá líka nammi?
Ragnheiður Dóra: neeei..
Pabbi: af hverju ekki?
Ragnheiður Dóra: jahh sko.. þú borðar alltaf svolítið mikið...
(á föður hennar kemur vægast sagt undarlegur svipur)
Ragnheiður Dóra eftir dálitla stund: borðar alltaf svo mikið af pizzu...

Fyndna barnið í leikskólanum:
Ragnheiður Dóra: Má ég fá meira rauðvín?
Leiksskólakennari: Rauðvín!
Ragnheiður Dóra: já
Leikskólakennari: áttu við rauðkál?
Ragnheiður Dóra: æ, já..

Fyndna barnið um lítil börn og guð:
Ragnheiður Dóra: Mig langar svo í lítið systkini!
Mamma: Langar þig?
Ragnheiður Dóra: Já.. litla systur.
Mamma: Þegar kemur nýtt barn þá getum við ekki ákveðið hvort það verður stelpa eða strákur, ástin mín.
Ragnheiður Dóra: Jú víst. Og ég vil litla systur.
Mamma: Veistu hver það er sem ræður hvort það verður? Það er guð sem ræður. En þú getur beðið hann um að það verði lítil stelpa, þá rætist það kannski.
Ragnheiður Dóra: Veistu hvað ég geri! Ég set bara á mig vængina mína, flýg upp til Guðs og bið hann um litla systur!

Fyndna barnið að hlusta á búkollu:
Afi: þá kom bolinn og pissaði og pissaði þangað til bálið var slokknað og héldu skessurnar þá áfram....
Ragnheiður Dóra: og hvað.. óðu þær þá í gegn um allt pissið?